Alexander og Heiðar

Alexander Heiðarsson keppti á Junior European Judo Cup í Poznan um síðustu helgi. Heiðar Jónsson var honum til halds og trausts sem aðstoðamaður og þjálfari. Alexander keppti í -66kg flokknum ásamt 22 öðrum. Alls voru keppendur 179, 113 karlar og 66 konur frá 25 þjóðum. Alexander dróst gegn mjög öflugum mótherja í fyrstu umferð, Abrek Naguchev. Naguchev sigraði, eftir vel útfærða gólfglímu. Naguchev sigraði svo flokkinn síðar um daginn. Alexander fékk því uppreisnarglímu. Í henni mætti hann öðrum öflugum mótherja, Yhonice Goeffon, frá Frakklandi. Goeffon bar sigur úr býtum eftir að hafa skorað tvívegis wazaari. Goeffon hlaut bronsverðlaun síðar um daginn og er því óhætt að segja að Alexander hafi ekki haft heppnina með sér hvað varðar uppröðun mótherja.