Judosamband Íslands (JSÍ) og íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) hafa nú undirritað samstarfssamning.

Samningurinn felur í sér að Judosamband Íslands mun veita meistaranema við HR í íþróttavísindum og þjálfun námsstyrk til tveggja ára, 2021 – 2023. Á móti skuldbindur meistaranemi og Háskólinn í Reykjavík sig til að gera yfirgripsmikla rannsókn er tengist líkamlegri getu landsliðsfólks í judo á  Íslandi. Stendur til að rannsóknin verði hluti af meistararitgerð til Msc gráðu í íþróttavísindum og þjálfun.  Akademískur starfsmaður HR mun verða ábyrgðarmaður rannsóknar og leiðbeinandi meistaranemans. Rannsóknin verður gerð í nánu samstarfi við þjálfarateymi landsliða og JSÍ.

Nemandi mun sjá um líkamlegar mælingar á landsliðsfólki í nánu samstarfi við þjálfarateymi landsliða og kennara íþróttafræðideildar HR á meðan námstíma stendur.

Einnig mun nemandinn leitast eftir því að vinna fleiri verkefni á námstímanum í tengslum við landsliðin, dæmi um slíkt væri að gera frammistöðugreiningu á yngra landsliðsfólki.