(Frétt fengin af vef Judo.is)

Fallinn er í valinn JR- ingurinn Svavar Marteinn Carlsen mikil öðlingur og judogarpur en hann lést laugardaginn 19. Febrúar 2022. Svavar var tvímælalaust einn af frumbyggjum judoíþróttarinnar á Íslandi sem og lyftingaíþróttarinnar en þar hafði hann verið mjög virkur í keppni. Hann átti sinn feril í judoíþróttinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þá var blómaskeið judosins á Íslandi og menn gerðu garðinn frægan á erlendi grund. Svavar byrjaði tiltölulega seint að æfa, en hann hætti líka seint og tók sín síðustu verðlaun á Íslandsmeistaramóti rúmlega fertugur. Geri aðrir betur. Hann var fyrsti Íslandsmeistarinn í judo en það var árið 1970 í opnum flokki og hann varð jafnframt fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Norðurlandamóti er hann vann til silfurverðlauna á stofnári Judosambands Íslands 1973. Hann var um langt árabil ósigrandi í sínum flokki og ókrýndur konungur judosins á Íslandi. Íslandsmeistari var hann margsinnis bæði í þungavigt og opnum flokki og vann auk þess til fjölda annara verðlauna á öðrum innlendum sem erlendum mótum. Verðlaunagripir hans verða örugglega ekki taldir á fingrum beggja handa.

Svavar var skemmtilegur í viðkynningu og góður félagi og það sem meira var, hann var judomaður af Guðsnáð.

Mikill kappi hefur nú kvatt þennan heim og fundið sér annan keppnisvöll í nýjum heimkynnum. Blessuð sé minning hans.

Félagar hans í Judofélagi Reykjavíkur minnast hans með söknuði og virðingu og þökk fyrir allt sem hann gerði fyrir judoíþróttina á Íslandi og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.